Útgefið efni

Fréttir

15. jún. 2016
Mótframlag í lífeyrissjóði hækkar um 3,5% til 2018

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa gert með sér samkomulag um hækkun  á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Mótframlag hækkar um 3,5% í þremur áföngum til 2018. Gengið var frá samkomulaginu í dag. 

  • 1. júlí 2016 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 0,5% stig
  • 1. júlí 2017 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
  • 1. júlí 2018 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
  • Hækkun um 0,5% þann 1. júlí nk. mun renna í samtryggingu sjóðsfélaga.
  • Frá 1. júlí 2017 getur fólk ráðstafað allt að 2% stigum í bundinn séreignarsparnað.
  • Frá 1. júlí 2018 getur fólk ráðstafað allt að 3,5% stigum í bundinn séreignarsparnað.

Samkvæmt kjarasamningi aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var 21. janúar 2016 hækkar mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð um samtals 3,5% stig á samningstímanum. Hækkunin kemur til framkvæmda í þremur áföngum, 0,5% stig þann 1. júlí 2016, 1,5% stig þann 1. júlí 2017 og um 1,5% stig þann 1. júlí 2018 og nær til þeirra lífeyrissjóða sem starfa á grundvelli kjarasamnings þessara aðila um lífeyrismál frá árinu 1969 og 1995. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs samkvæmt samningi þessum verður þá samtals 15,5% frá 1. júlí 2018, sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekanda.

Samkvæmt samningi aðila frá 21. janúar 2016  verður einstaklingum heimilt að ráðstafa, að hluta eða fullu, auknu framlagi launagreiðanda í bundinn séreignasparnað í stað samtryggingar til að auðvelda launafólki starfslok og auka sveigjanleika.

Atvinnurekendum verður áfram skylt að skila öllu skyldutryggingariðgjaldinu til lífeyrissjóðs viðkomandi launamanns. Sjóðfélagar munu því snúa sér beint til viðkomandi lífeyrissjóðs ef þeir óska eftir því að nýta sér þennan rétt, en lífeyrissjóðir sem starfa á grundvelli kjarasamninga ASÍ og SA munu setja upp sérstakar deildir um þessa bundnu séreign.

Ljóst er að núverandi löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða hefur ekki að geyma ákvæði sem heimilar sjóðsfélögum eða lífeyrissjóðum að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í bundna séreign.  Einnig er ljóst að tíminn fram til 1. júlí 2016 er ekki nægur til að lífeyrissjóðirnir geti sett upp gagnsætt og skilvirkt kerfi svo sjóðsfélagar geti tekið upplýsta ákvörðun um að ráðstafa hluta skyldutryggingariðgjalds í bundna séreign og áhrif þeirrar ákvörðunar á samsetningu réttinda sinna. 

Því er óhjákvæmilegt annað en að fresta gildistöku heimildar til ráðstöfunar í bundna séreign til 1. júlí 2017 en þá verði launamanni heimilt að ráðstafa allt að 2% stigum í bundna séreign. Frá og með 1. júlí 2018 verði launamanni heimilt að ráðstafa til viðbótar allt að 1,5% stigum til bundinnar séreignar eða samtals allt að 3,5% stigum.

Hækkun framlags atvinnurekenda til lífeyrissjóðs um 0,5% frá og með 1. júlí 2016 verður fyrst um sinn ráðstafað í samtryggingu viðkomandi lífeyrissjóðs þar til valrétturinn tekur gildi frá og með 1. júlí 2017.

Fulltrúar VSSÍ hafa mætt á 4 aðalfundi hjá eftirtöldum aðildarfélögum:

Verkstjóra- og stjórnendafélagi Suðunesja 8. mars, Brú félag stjórnenda Reykjavík 14. mars, Félag stjórnenda við Breiðafjörð 30. mars og Berg félag stjórnenda á Akureyri 31. mars.

Mæting á þessa aðalfundi hefur verið þokkaleg. Auk venjubundinna aðalfundadagskrár þá hafa umræður um það hvað félögin geta gert fyrir sína félagsmenn verið nokkuð áberandi. Fjárhagsstaða þessara félaga er mjög sterk.

Forseti og framkvæmdastjóri VSSÍ hafa farið yfir ýmis mál og má nefna nokkur dæmi. Hundrað prósent fjarnám, orlofsvefinn sem hefur sannað gildi sitt, samræming félagsgjalda, samræming á nöfnum aðildarfélaga, logo og nafnabreyting á VSSÍ, kjarasamningar, sjúkrasjóður og fjölgun félaga á síðasta ári sem var um 200 nýir félagsmenn nettó.

Næstu aðalfundi er finna á heimsíðu VSSÍ undir liðnum ,,Viðburðir framundan´´

Að gefnu tilefni viljum við minna félagsmenn aðildarfélaga Verkstjórasambands Íslands á afsláttarkjörin. Um tvenns konar afsláttarkerfi er að ræða annars vegar VSSÍ afsláttinn og hins vegar Frímanns afsláttinn. 

Verkstjórasamband Íslands er aðili að Frímanns afslætti sem býður félagsmönnum upp á afsláttar- og fríðindakjör. Markmiðið er að geta boðið fleiri og betri afslætti í krafti fjöldans og að fyrirtæki sjái hag sinn í því að bjóða stækkandi hópi félagsmanna og fjölskyldum þeirra upp á afslátt af vörum og þjónustu. Alls eru 24 félagasamtök aðilar af afsláttarkerfinu.

Auk afsláttarkjara Frímanns býður VSSÍ félagsmönnum upp á afslætti frá hinum ýmsum fyrirtækjum um land allt. Athugið að nauðsynlegt er að sýna félagsskírteini VSSÍ til að fá afsláttinn.

Smelltu hér til að fara á afsláttarsíðu VSSÍ

 

                                       logo frimann                  logo

Skipulag náms og dagskrá

Lotur skiptast í mismarga áfanga. Hver áfangi tekur eina viku og er gert ráð fyrir að nemendur verji 7- 10 klukkustundum í nám og verkefnavinnu. Stígandi í námi gerir ráð fyrir að nemendur taki lotur í „réttri röð“ þ.e. byrji á lotu 1 og endi á lotu 5. Frá þessu geta verið undantekningar. Lota 1 var kennd á vorönn 2015 og er nú í endurskoðun. Hún verður aftur í boð á vorönn 2016 (dagsetningar tilkynntar síðar). Lota 2 hófst 17. september 2015 og lýkur 24. apríl 2016 (sjá stundatafla fyrir lotu 2). Lota 3 hefst á haustönn 2016. Lotur 4 og 5 verða kenndar á vorönn 2017.

Námið skiptist í fimm mislangar lotur:


Lota 1: Ég verkstjórinn/millistjórnandinn 
Fjallar um einstaklinginn í þeirri stöðu sem hann gegnir; hvers vegna er „ég“ hér, hversu hæfan tel „ég mig“ vera og hvað þarf „ég“ til að auka hæfni mína? Hver er afstaða „mín“ til fyrirtækis, yfirmanna, samstarfsmanna og undirmanna? Lotan skiptist í níu áfanga.

Lota 2: Ég og samstarfsfólkið
 Lotan er þrískipt:
1) Formleg staða verkstjóra / millistjórnanda - Lota 2.1: Í ljósi laga, reglugerða og kjarasamninga (4 áfangar).
2) Mannauðsstjórnun - Lota 2.2: Fjallar um meginatriði mannauðsstjórnunar, bæði í skipulagseiningu (deild, sviði, útibúi) og skipulagsheild (fyrirtæki, stofnun). Lotan skiptist í 11 áfanga.
3) Heilsufar og atferli starfsmanna - Lota 2.3: Fjallar um starfsaðstöðu, velferð (s.s. öryggismál, heilsufar), fjarvistir og ýmis vandamál sem fyrirtæki og starfsmenn glíma við - ásamt lausnum. Lotan skiptist í 10 áfanga.

Lota 3: Fyrirtækið – Skipulag 
Hér er fjallað um innra skipulag fyrirtækja og sem verkstjóri/millistjórnandi þarf að hafa þekkingu á og hæfni til að höndla, s.s stjórnkerfisskipulag og ákvarðandatöku á þeim vettvangi, formlegt starfsmannahald, gæðakerfi, öryggismál á vinnustað og viðhald tækja, einkum með tilliti til öryggis og framleiðni. Lotan er 15 áfangar.

Lota 4: Fyrirtækið – rekstur
 Verkstjórar / millistjórnendur eru leiddir í gegnum þau atriði í rekstraráætlunum sem þeir þurfa að hafa á reiðum höndum. Þetta lýtur að markmiðum, ferlum, framleiðnimælingum, hagræðingu og tölulegum rekstrarupplýsingum. Lotan er sex áfangar.

Lota 5: Fyrirtækið – umhverfið 
Hér er sjónum beint að fyrirtækinu í nær- og fjærumhverfi sínu, eigendum, viðskiptavinum, keppinautum, birgjum, stofnunum og stjórnvöldum. Fjallað um þessa þætti í ljósi stefnu skipulagseiningar, t.d. umhverfis- og samfélagsstefnu. Lotan er sjö áfangar.
Allar lotur og áfanga er hægt að sjá með því að fara inná Nýsköpunarmiðstöðina, http://nmi.is/

Þessir aðilar standa að gerð þessa námsefnis:
vssilogosalogonmilogo