SAMBAND STJÓRNENDAFÉLAGA

Ráðninga­rsamningar

Ráðningarsamningur er samningur milli einstaklings og fyrirtækis um réttindi þeirra, skyldur og samskipti. Með samningnum skuldbindur starfsmaðurinn sig til að vinna fyrir atvinnurekandann gegn greiðslu. Skriflegur ráðningarsamningur skal gerður ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að starf hefur hafist.

dsc 8945 min
Upplýsingar

Upplýsingar um gerð ráðningarsamninga

Það getur verið ágætt að hafa fyrirmyndir af ráðningarsamningi en það er ástæðulaust að taka þá fyrirmynd
alltof hátíðlega.

Fyrirmyndirnar eru oftast samdar af atvinnurekendum eða fulltrúum þeirra. Þegar verið er að gera sérstakan ráðningarsamning eru almennir samningar stéttarfélags viðkomandi starfsmanns og atvinnurekenda aðeins lágmark og því er heimilt að semja um hærri laun og aukin hlunnindi. Ástæða er til að benda mönnum á að fara varlega þegar fastlaunasamningar eru gerðir.

Vinnutími

Þegar samið er um föst laun og ótakmarkaðan vinnutíma er staðan í upphafi oft á tíðum þannig að ekki eru horfur á að yfirvinna verði mikil en síðar geta aðstæður breyst. Skipulagi getur verið breytt innan fyrirtækisins t.d. í sparnaðarskyni þannig að verkefni og vinnuálag eykst í kjölfarið. Einnig geta viðskipti aukist og álagið breytist eftir því. Það er reynsla margra að ef ekki eru sett mörk á álag og vinnutíma þá er erfitt að ná fram endurskoðun á ráðningarsamningi. Við mælum því eindregið með að hámark sé sett á vinnutíma. Hvort sett verði hámark á yfirvinnu þarf að ræða við gerð samningsins.

Launakjörin

Rétt er að vanda sig vel við samþykkt á launakjörum. Þar þarf að kanna vel hvað telst eðlilegt og sanngjarnt í viðkomandi umhverfi, í sambærilegum störfum og með hliðsjón af álagi og ábyrgð. Það er auðvitað rétt að reyna að fá sem hagstæðust launakjör og lítil ástæða til að draga úr því. Þó er rétt að minna á tvær hættur sem steðja að þeim sem verðleggja vinnu sína verulega hærra en aðrir. Í fyrsta lagi gengur þeim verr að fá vinnu og í öðru lagi er það atvinnurekandanum hvatning að losa sig fyrst við þá í samdrætti. Sömuleiðis er óhagstætt að verðleggja vinnuframlag sitt of lágt en auk tekjutapsins hafa vinnuveitendur tilhneigingu til að líta á starfsmenn sem hug- og metnaðarlausa ef þeir sætta sig við slíkt og því eiga þeir litla framavon á þeim vinnustað.

Endurskoðunarákvæði

Samkvæmt samningum Samband stjórnendafélaga við Samtök atvinnulífsins eiga verkstjórar og stjórnendur í okkar samtökum rétt á viðtali um störf sín og hugsanlegar breytingar á starfskjörum einu sinni á ári. Það er rétt að ítreka þetta í ráðningarsamningi og festa þannig endurskoðun á honum í reglubundið horf.

Orlofið

Hægt að semja um orlofsdaga. Þegar reyndir starfsmenn eru að ráða sig á nýjan stað en hafa áður náð fullum orlofsrétti hjá fyrri vinnuveitanda (eftir tíu ár hjá sama vinnuveitanda) sem er nú 30 dagar hjá STF tekur það þrjú ár að ná þessum rétti að nýju. Það er ástæða til að semja sérstaklega um þetta – það er fyllilega heimilt og eðlilegt!

Vinnutæki - Hlunnindi - Símenntun

Rétt er að tilgreina í samningi ef gert er ráð fyrir að atvinnurekandi leggi til afnot af húsnæði, bifreið eða síma. Það sama gildir um áskriftir að fagblöðum eða slíku. Fyrirætlanir um símenntun og námskeið eiga líka heima í ráðningarsamningi.

Þróun starfsins

Það getur verið jákvætt og hjálplegt að taka fram í ráðningarsamningi hvort menn sjá fyrir sér einhverja þróun starfsins. Er stefnt að einhverju sérstöku.

Nytsamleg skjöl

Hér má nálgast sýniseintak af ráðningarsamningi.