Reglugerð Starfsmenntasjóðs
Hér má finna gildandi reglugerð Starfsmenntasjóðs STF.
1 Skipulagsskrá Starfsmenntasjóðs.
1.1 Um sjóðinn.
Sjóðurinn heitir Starfsmenntasjóður STF. Heimili hans og varnarþing er í Kópavogi. Félagar eru þeir sem skilað hafa iðgjaldi af launum til sjóðsins, umsömdu samkvæmt kjarasamningum hverju sinni.
1.2 Markmið sjóðsins.
Að styrkja félagsfólk innan aðildarfélaga STF til að sækja sér fræðslu er gerir þá hæfari til stjórnunarstarfa.
1.3 Tekjur sjóðsins.
o Hlutfall af aðildargjöldum STF sem ákveðið er á þingum þess hverju sinni.
o Aðrar tekjur sem samið kann að vera um.
o Vaxtatekjur og styrkveitingar.
1.4 Rekstrarkostnaður.
Allan kostnað vegna reksturs sjóðsins greiðir hann sjálfur.
1.5 Greiðsluskylda.
Greiðsluskylda sjóðsins miðast við stöðu hans hverju sinni að mati sjóðsstjórnar á greiðslugetu hans. Einstaklingur er nýtur styrks úr sjóðnum skal leggja fram gögn sem staðfesta greiðsluskyldu sjóðsins.
2 Réttur til styrkveitinga.
2.1 Myndun réttinda í sjóðnum.
Rétt í Starfsmenntasjóði STF eiga félagar aðildarfélaga STF sem greiðslur hafa borist af í sjóðinn í samfellt 6 mánuði. Hjá nýjum félögum skal reikningur eða verkefni aldrei ná lengra aftur í tímann en félagsaðild viðkomandi.
Réttur skapast ekki í Starfsmenntasjóði STF með greiðslum félagsgjalda af atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofsgreiðslum og/eða sjúkradagpeningagreiðslum. Slíkar greiðslur viðhalda áunnum rétti hjá þeim sem áður hafa aflað sér réttinda hjá sjóðnum.
2.2 Fullur styrkur eða styrkur að hluta.
Til þess að fá fullan styrk úr starfsmenntasjóði skal miða við lágmarkstekjuviðmið sem er kr. 618.348 (Fylgi launabreytingum kjarasamnings STF og Fjármála-og efnahagsráðherra f.h. ríkisins (SNF), launafl. 10 – 7. þrepi. uppfært 01.04.2025). Sé greitt af lægri upphæð og/eða iðgjaldasaga ekki samfelld síðustu 6 mánuði, skerðast styrkir hlutfallslega í samræmi við það.
2.3 Afgreiðsla umsókna.
Starfsfólk sjóðsins afgreiðir umsóknir samkvæmt starfsreglum þessum og í samræmi við ákvarðanir sjóðstjórnar. Stjórn sjóðsins sker úr um vafaatriði, t.d. um sjóðsaðild eða styrkhæfi umsókna og tekur á öðrum málum sem upp kunna að koma.
2.4 Málskotsréttur.
Ef félagi er ósáttur við afgreiðslu umsóknar sinnar á hann ávallt rétt á að vísa erindi sínu á ný til stjórnar Starfsmenntasjóðs STF sem fjallar þá um umsóknina aftur og sker úr um afgreiðslu hennar.
2.5 Forgangur.
Ef sjóðsþurrð verður eða sjóðurinn stendur illa miðað við tekjur og væntanlegar skuldbindingar að mati sjóðsstjórnar skulu þeir njóta forgangs sem aldrei hafa hlotið fyrir greiðslu hjá sjóðnum. Ef þá er enn þörf á forgangsröðun er sjóðsstjórn heimilt að gefa fræðilegri verkefnum forgang umfram önnur.
3 Styrkhæf verkefni og styrkupphæð.
Verkefni þarf að jafnaði að varða annað hvort starf eða fagsvið félaga eða getað orðið þeim til tekna til að teljast styrkhæft. Skila þarf inn reikning og staðfestingu á greiðslu til að hægt sé að greiða út styrki.
Styrkupphæð getur aldrei orðið hærri en 80% af reikningi.
o 200.000 kr. vegna náms, námskeiða, ráðstefna og málþinga, þar af má nýta:
- 150.000 kr. vegna kynnisferða
- 35.000 kr. vegna tómstundanámskeiða
o 60.000 kr. vegna ferðakostnaðar innanlands.
Styrkur endurnýjast 12 mánuðum eftir að hann var greiddur út.
Félagi getur ekki fullnýtt rétt sinn hjá Starfsmenntasjóði STF og öðrum sjóðum STF samtímis vegna sama verkefnis. Ekki er hægt að sækja um styrk vegna verkefnis eða kostnaðar sem er styrkhæfur undir öðrum styrkflokkum í sjóðum STF.
3.1 Nám, námskeið, ráðstefnur og málþing.
Hámarksstyrkur sem hver einstaklingur getur fengið fyrir nám, námskeið, ráðstefnur og málþing er 200.000 kr. á 12 mánaða fljótandi tímabili, þ.e. styrkur endurnýjast 1 ári eftir að sótt var um styrkinn.
Undir þessum styrkflokk fer ferðakostnaður vegna verkefnis erlendis, kostnaður vegna prófgjalda og starfslokanámskeiða.
Þegar sótt er um styrk fyrir dýrara námi er hægt að fá styrk fyrirframgreiddan. Athugið að styrkurinn endurnýjast þá tveimur eða þremur árum eftir greiðsludag umsóknar eftir því hvor upphæðina er sótt um:
o Vegna náms þar sem skólagjöld ná 600.000 kr. er hægt að sækja um fyrir fram greiddan styrk til tveggja ára, 400.000 kr. styrkur. Styrkurinn endurnýjast 2 árum eftir að sótt var um styrkinn.
o Vegna náms þar sem skólagjöld ná 900.000 kr. er hægt að sækja um fyrir fram greiddan styrk til þriggja ára, 600.000 kr. styrkur. Styrkurinn endurnýjast 3 árum eftir að sótt var um styrkinn.
Stjórn sjóðsins getur gert undanþágu frá þessari reglu.
Þá er hægt að nýta hluta styrksins vegna kynnisferða og tómstundanámskeiða, sbr. gr. 3.1.1 og 3.1.2:
3.1.1 Kynnisferðir.
Að hámarki má nýta 150.000 kr. af 200.000 kr. styrknum á 12 mánaða tímabili vegna kynnisferða.
Með umsókn þarf að skila inn fræðsludagskrá, þátttakendalista og öllum reikningum.
o Fræðsludagskrá vegna faglega skipulagðrar heimsóknar eða kynnisferðar erlendis þarf að skiptast á a.m.k. tvo daga og þarf fræðsludagskrá að spanna að lágmarki átta klst. í fræðslu.
o Fræðsludagskrá vegna faglega skipulagðrar heimsóknar eða kynnisferðar innanlands þarf að spanna að lágmarki sex klst.
Þegar kemur að kynnisferðum þá er styrkur, að öllu jöfnu, eingöngu veittur til félaga sem starfar hjá því fyrirtæki/stofnun sem skipuleggur tiltekna kynnisferð og greiðir fyrir viðkomandi til Starfsmenntasjóðs STF. Ekki er veittur styrkur vegna slíkra ferða fyrir maka, barns/barna eða annarra nákominna þrátt fyrir að sá aðili sé félagi í aðildarfélagi innan STF og eigi rétt í Starfsmenntasjóði STF.
3.1.2 Tómstundanámskeið.
Að hámarki má nýta 35.000 kr. af 200.000 kr. styrknum á 12 mánaða tímabili vegna tómstundanámskeiða.
3.2 Styrkur fyrir ferðakostnaði innanlands.
Að hámarki 60.000 kr. á 12 mánaða tímabili.
Ef vegalengd frá lögheimili að náms-/ráðstefnustað er lengri en 100 km. er 10.000 kr. fastur ferðastyrkur.
Fyrir gistikostnað þarf að skila inn reikning og greiðslukvittun. Aðeins er veittur styrkur vegna nótta sem falla til á meðan að á verkefni stendur.
Skila þarf inn staðfestingu á mætingu í staðlotu/próf til að fá styrkinn.
3.3 Hvað er ekki styrkt?
o Uppihald (fæðiskostnaður)
o Bensínkostnaður
4 Hlé/rof á sjóðsaðild eða iðgjaldagreiðslum til sjóðsins.
4.1 Rof á iðgjaldagreiðslum.
Réttur til greiðslna úr sjóðnum fellur niður að þremur mánuðum liðnum frá því síðast var greitt iðgjald til sjóðsins.
4.2 Starfslok.
Til þess að félagi haldi fullum rétti til styrkja eftir starfslok þurfa greiðslur að hafa borist sjóðnum reglulega síðustu 10 ár fyrir starfslokin. Styrkir skerðast hlutfallslega fyrir hvert ár sem vantar á 10 ár. (Dæmi: eftir 9 ár verður hámarks styrkupphæð 90% ). Gildir þetta fyrir hvern þann félaga sem kýs að hætta störfum frá 65 ára aldri, enda sýni hann fram á að sinna ekki launuðu starfi og greiða til annars félags.
4.3 Fæðingarorlof.
Félagi í fæðingarorlofi sem velur að greiða stéttarfélagsgjald meðan á því stendur, viðheldur áunnum réttindum í sjóðnum yfir það tímabil sem þeir þiggja fæðingarorlofsgreiðslur frá Fæðingarorlofssjóði.
Ef félagi kýs að greiða ekki stéttarfélagsgjald af fæðingarorlofsgreiðslum missir hann rétt sinn til styrkveitinga úr sjóðnum.
4.4 Atvinnuleysi.
Félagi í atvinnuleysi sem velur að greiða stéttarfélagsgjald meðan á því stendur, viðheldur áunnum réttindum í sjóðnum ef hann greiðir stéttarfélagsgjald af atvinnuleysisbótum frá upphafi atvinnumissis.
Ef félagi kýs að greiða ekki stéttarfélagsgjald af atvinnuleysisbótum missir hann rétt sinn til styrkveitinga úr sjóðnum.
4.5 Veikindi.
Félagar viðhalda áunnum réttindum sínum í sjóðnum yfir það tímabil sem þeir fá greidda sjúkradagpeninga frá Sjúkrasjóði STF.
Félagar viðhalda áunnum réttindum á endurhæfingarlífeyri gegn því að skilað sé inn staðfestingu á greiðslum frá Tryggingastofnun.
4.6 Annað rof á aðild.
Stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni hvort og hvernig meta skuli eldri sjóðsaðild til að brúa rof á aðild.
5 Gildistökuákvæði.
Reglur þessar eru samþykktar af stjórn Starfsmenntasjóðs STF 10.12.2025 og taka gildi frá og með 1. janúar 2026. Við gildistökuna falla úr gildi eldri starfsreglur og aðrar ákvarðanir sem ekki eru í samræmi við reglur þessar. Reglurnar geta tekið breytingum samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni, út frá fjárhagsstöðu sjóðsins.
Stofnár sjóðsins var 1999. Gildistímar breytinga á reglugerð:
02.06.2007, 05.06.2009, 08.05.2010, 04.06.2011, 01.06.2013, 01.05.2015, 01.07.2019, 01.01.2025, 01.01.2026.