Sjúkradagpeningar
Eitt af megin hlutverkum Sjúkrasjóðs verk- og stjórnenda er að greiða bætur til félagsmanna í veikinda og slysatilfellum.
Sjúkrasjóður - Reglur
Réttindi til sjúkradagpeninga
Nýr félagi ávinnur sér rétt til sjúkradagpeninga með eftirtöldum hætti:
Eftir 6 mánuði – 3 mánuðir í sjúkradagpeninga
Eftir 12 mánuði – 4 mánuðir í sjúkradagpeninga
Eftir 36 mánuði – 6 mánuðir í sjúkradagpeninga
Eftir 60 mánuði – 9 mánuðir í sjúkradagpeninga
Nýr félagi sem kemur með réttindi frá öðru stéttarfélagi nýtur áunnins réttar skv. reglum þess félags frá fyrsta mánuði hjá stjórnendafélagi, nema þó að því marki sem reglugerð þessi segir til um sbr. grein 8.1.
Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir eigi félagsmaður rétt eða fái greiddan fullan örorkulífeyri.
Félagsmaður sem vinnur fram yfir 67 ára aldur og atvinnuveitandi greiðir áfram af til sjúkrasjóðs heldur dagpeningarétti í 3 mánuði eftir samningsbundnar greiðslur frá atvinnurekanda lýkur.
Þegar sótt er um sjúkradagpeninga skal fylla út umsóknareyðublað, sjá hér . Með umsókninni þarf að senda eftirtalin gögn:
- Launaseðla síðustu 12 mánaða
- Sjúkradagpeningavottorð sem gefið er út á Íslandi – athugið sérstaklega að hér er ekki um að ræða hefðbundið vottorð til atvinnurekanda
- Staðfesting vinnuveitanda að viðkomandi hafi fullnýtt veikindarétt sinn, sjá eyðublað hér
Meðan vinnuveitandi greiðir lög og samningsbundin dagvinnulaun, greiðist töpuð yfirvinna í allt að 3 mánuði samkvæmt réttindaávinnslu, meðaltal yfirvinnu á 6 mánaða tímabili fyrir veikindi, hámark 250.819 kr. á mán. (Fylgir launabreytingum kjarasamningi STF og Fjármála-og efnahagsráðherra f.h. ríkisins (SNF), 50% af launafl, 10, 7. þrepi. ( uppfært 03.03.2023 )
Dagpeningagreiðslur samkvæmt réttindaávinnslu skal tryggja 80,0% af meðaltalslaunum síðustu 12 mánaða fyrir veikindi/slys til loka réttindatímabils.
Heimilt er samkvæmt mati sjóðsstjórnar að greiða hluta dagpeningagreiðslu um tiltekinn tíma ef stjórnandi getur ekki stundað fulla vinnu, þó aldrei lengur en í 9 mánuði.
Ýmsar sérstakar greiðslur reiknast ekki til bóta, svo sem bifreiðastyrkir og annað að mati stjórnar sjúkrasjóðs.
Bótagreiðslur taka breytingum samkvæmt viðmiðum launabreytinga eftir ákvörðun sjúkrasjóðsstjórnar
Sjálfstætt starfandi sjóðsfélagar öðlast ekki rétt til sjúkradagpeninga fyrr en að loknum þeim veikindarétti sem þeir hefðu aflað sér sem launamenn í sama starfi.