Lög STF
LÖG SAMBANDS STJÓRNENDAFÉLAGA

Lög STF
I. Kafli: NAFN SAMBANDSINS OG TILGANGUR
1. grein, nafn, heimili og varnarþing
Sambandið heitir SAMBAND STJÓRNENDAFÉLAGA skammstafað STF. Starfssvæði þess er landið allt. Heimili þess og varnarþing er í Kópavogi.
2. grein, tilgangur
STF eru heildarsamtök verkstjóra og annarra stjórnenda. Tilgangur þess er að:
1. Sameina innan sinna vébanda öll verkstjóra- og stjórnendafélög.
2. Vinna að bættum launakjörum, aukinni menntun, réttindum og öðrum hagsmunamálum félagsmanna.
3. Að veita aðildarfélögum aðstoð og upplýsingar sé þess óskað og ástæða sé til að mati sambandsstjórnar.
3. grein, gerð kjarasamninga
STF gerir kjarasamninga við vinnuveitendur í umboði aðildarfélaga. Kjarasamningur skal borinn undir félagsmenn í atkvæðagreiðslu í samræmi við lög.
Tryggja þarf að í öllum samningum verði notaður rithátturinn verkstjóri/stjórnandi. Atkvæðagreiðsla skal að öllu jöfnu fara fram með rafrænum hætti.
4. grein, óhæði
STF svo og einstök verkstjóra- og stjórnendafélög innan þess hafa engin afskipti af stjórnmálum. Í öllum deilum á milli launþega og vinnuveitenda eru félagar innan STF algerlega hlutlausir hvort sem um er að ræða verkföll eða verkbönn. Skylt er hverjum stjórnanda að gæta þess verðmætis, sem honum er falinn umsjón með.
II. Kafli: SKYLDUR AÐILDARFÉLAGA
5. grein, innganga og úrsögn
Aðilar að STF geta þau félög ein orðið, sem eru stéttarsamtök stjórnenda.
Umsókn um inngöngu í STF skal fylgja nafnaskrá ásamt afriti af lögum félagsins. Hafi stjórn STF ekkert við lög félagsins né nafnaskrá að athuga, veitir hún félaginu inngöngu í samræmi við lög STF. Úrsögn úr STF er því aðeins lögmæt hafi hún verið samþykkt með 2/3 atkvæða á tveim lögmætum félagsfundum með minnst viku millibili.
6. grein, skyldur aðildarfélaga
Hvert aðildarfélag hefur fullt frelsi um sín innri mál.
Hvert aðildarfélag STF skal halda aðalfundi árlega. Aðalfundur félags kýs í stjórn STF samkvæmt 11. grein laga STF. Skylt er félagsstjórnum með minnst tveggja vikna fyrirvara að tilkynna skrifstofu STF hvar og hvenær aðalfundir félaganna verða haldnir. Liggi lagabreytingar fyrir aðalfundi aðildarfélags skulu þær fylgja fundarboði. Neiti kjörnir stjórnarmenn aðildarfélags að gegna störfum eða starfa ekki fyrir félagið getur stjórn STF boðað til félagsfundar og skipað nýja stjórn fyrir félagið. Verði aðildarfélag af óviðráðanlegum ástæðum að leggja niður starfsemi sína skulu eignir þess og skjöl afhent stjórn STF til varðveislu. STF ávaxtar eignir viðkomandi félags á meðan þær eru í vörslu þess og skal að fremsta megni reyna endurreisn félagsins eða sameiningu við annað aðildarfélag. Hefji félagið starfsemi sína á ný innan fimm ára, nýtt félag hafi verið stofnað eða félagsmenn sameinast öðru aðildarfélagi skal STF afhenda téðar eignir. Að öðrum kosti renna eignir þess til STF.
Ef STF er lagt niður renna eignir þess til aðildarfélaganna ef einhver eru, annars til líknamála.
7. grein, aðildarfélagsgjald
Stjórn STF ákvarðar aðildarfélagsgjald hverju sinni.
Við skil STF á gjöldum til félaganna skal halda eftir aðildarfélagsgjaldinu
III. Kafli: SAMBANDSÞING
8. grein, boðun á sambandsþing og tilnefningar
Sambandsþing STF skal halda annað hvert ár á tímabilinu maí – júní og skal boða til þess fyrir 1. mars á þingári. Sambandsþing hefur æðsta vald í öllum málefnum STF og er lögmætt ef löglega er til þess boðað og 3/4 þingfulltrúa eru mættir.
Í þingboði skal getið þeirra dagskrármála er stjórn STF hyggst leggja fyrir þing. Hvert aðildarfélag tilnefni fulltrúa til sambandsþings STF.
Tilnefna skal einn fulltrúa fyrir hverja fimmtíu félagsmenn eða brot af þeirri tölu yfir tuttugu. Hvert félag á rétt á tveimur fulltrúum hversu fámennt sem félagið er. Stjórnarmenn STF skulu mæta á sambandsþing sem fulltrúar síns félags. Aðildarfélag leggur fram kjörbréf með nöfnum fulltrúa í upphafi þings undirritað af tveimur stjórnarmönnum hlutaðeigandi félags. Þingfulltrúar hafa atkvæðisrétt á sambandsþingi.
Fulltrúatala reiknist af gjaldskyldum félögum um áramót fyrir þing.
Forseti STF er sjálfkjörinn til þings með atkvæðisrétti.
Fulltrúar í stjórn sjúkrasjóðs, menntunarsjóðs og starfsmenntunarsjóðs, sem skipaðir eru af STF, hafa rétt til setu á sambandsþingi og skulu hafa málfrelsi og tillögurétt en eru án atkvæðisréttar.
Rétt til setu á sambandsþingi hafa starfsmenn STF, starfsmenn á starfandi félagsskrifstofum aðildarfélaganna og starfmenn þingsins. Þá hafa gestir á þingi rétt til setu á þinginu í samræmi við það sem leiðir af dagskrá og ákvörðun þingforseta. Stjórn getur ákveðið að einstakir dagskrárliðir þings séu opnir fyrir félagsmenn.
Skýrslur aðildarfélaga og nöfn þingfulltrúa skal afhenda STF tveimur vikum fyrir þing.
Tillögur að breytingum á lögum STF verða að berast fyrir 1. mars á þingári.
9. grein, þingstörf
Í upphafi sambandsþings skal kjósa tvo þingforseta, er skipta með sér að stjórna þingfundum. Þá skal kjósa þrjá þingritara. Heimilt er að nota hljóðritunartæki. Sambandsstjórnarmenn eru ekki kjörgengir til þessara starfa.
Skýrsla forseta yfir kjörtímabil sambandsstjórnar skal lögð fram á þinginu ásamt samþykktum reikningum STF sem sambandsstjórn hefur samþykkt samkvæmt 14. grein. Hver fulltrúi skal fá eitt eintak af skýrslu og reikningum.
Fundargerð má skrá með rafrænum hætti. Tryggja skal varðveislu allra rafrænna gagna. Jafnframt er heimilt að líma út prentuð fundargögn inn í fundargerðarbók. Þingforsetar og ritarar skulu árita fundargerð þegar hún liggur fyrir. Einnig skulu ritarar setja upphafsstafi sína undir hverja blaðsíðu fundargerðar.
Skriflega atkvæðagreiðslu skal viðhafa í öllum málum sé þess óskað.
Sambandsþing hefur eitt vald til að breyta lögum sambandsins og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða. Til slita sambandsins þarf 2/3 hluta atkvæða allra þingfulltrúa.
Samþykki stjórn STF breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs taka þær gildi. Kynna skal reglugerðarbreytingar á sambandsþingi.
Leggja skal til hliðar 3,2% af aðildarfélagsgjaldi hvers árs til að standa straum af kostnaði vegna þinghalds. STF greiðir úr þingsjóði beinan kostnað af þinghaldi svo sem ritföng, prentun gagna og húsaleigu vegna þingfunda. Ónýttum fjárheimildum vegna þinghalds má verja til niðurgreiðslu ferðakostnaðar eða í félagssjóð STF samkvæmt frekari ákvörðun stjórnar STF.
10. grein, aukaþing
Stjórn STF getur boðað til aukaþings með 10 daga fyrirvara. Skylt er að boða til aukaþings ef 1/3 þingfulltrúa eða stjórnir þriggja aðildarfélaga, að félagafjölda samanlagt minnst 20% af félagatölu sambandsins óska þess. Aukaþing er lögmætt sé löglega til þess boðað. Aukaþing tekur aðeins til afgreiðslu þau mál, sem nefnd hafa verið í þingboði.
IV. Kafli: STJÓRN SAMBANDSINS.
11. grein, kosning stjórnar
Hvert aðildarfélag skipar einn fulltrúa í stjórn STF. Á aðalfundi hvers aðildarfélags skal árlega kjósa einn aðalmann og varamann hans úr stjórn félagsins til setu í stjórn STF. Varamaður tekur sæti aðalmanns í forföllum hans. Kjör stjórnarmanna skal tilkynna skrifstofu STF innan sjö daga frá kjöri.
Stjórnarmaður tekur sæti á fyrsta fundi stjórnar STF eftir kjör hans. Kjörtímabil stjórnar og varamanna er á milli aðalfunda félaga. Fulltrúi sameinaðs félags haldi rétti til setu í stjórn STF fram að næsta þingi
STF.
Forseti skal kosinn á sambandsþingi úr röðum félagsmanna. Tilkynna skal framboð fyrir 1. mars á þingári. Sitjandi forseti skal tilkynna framboð til áframhaldandi formennsku fyrir 1. febrúar á þingári.
Frambjóðendum til embættis forseta skal veitt tækifæri til að kynna sig á sambandsþinginu. Ef þrír eða fleiri eru í framboði skal kosið aftur milli tveggja efstu, ef engin fær meira en 50% greiddra atkvæða í fyrstu umferð. Kjörtímabil forseta er á milli þinga.
Stjórnin kýs úr sínum hópi, varaforseta, ritara og gjaldkera.
12. grein, hlutverk stjórnar og forseta
Stjórn STF í umboði aðildarfélaganna, hefur æðsta vald í öllum málefnum STF á milli sambandsþinga.
Hún setur sér starfsreglur sem bornar skulu upp til samþykktar á stjórnarfundi STF og veraaðgengilegar á heimasíðu STF. Atkvæðavægi hvers félags innan stjórnar STF skal miðast við félagafjölda þess um áramót, sbr. 8. gr., en þar er miðað við gjaldskylda félaga. Komi upp ágreiningur um afgreiðslu máls eða mála innan stjórnar sambandsins skal fresta afgreiðslu þess til næsta stjórnarfundar. Náist ekki sátt, gildir atkvæðavægi hvers félags innan stjórnarinnar við afgreiðslu málsins. Áður en til atkvæðagreiðslu kemur getur 1/3 hluti stjórnarmanna vísað málinu til næsta þings.
Komi til sameininga aðildarfélaga falla atkvæði þeirra undir sameinað félag fram til næsta þings.
Stjórnin tilnefnir til tveggja ára menn í samninganefnd, tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara.
Gjaldkera og tvo aðra í stjórn sjúkrasjóðs og tvo til vara. Formann Mennta- og atvinnumálanefndar og tvo aðra í hvorn menntunarsjóð og tvo til vara. Stjórnin skipar í fulltrúaráð lífeyrissjóðinn Birtu til tveggja
ára í senn þann fjölda fulltrúa, sem lög sjóðsins segja til um. Sá sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir STF er bundinn þagnarskyldu fari forseti eða stjórnarfundur fram á slíkt. STF greiðir laun og annan kostnað
stjórnar- og nefndarmanna samkvæmt samþykktum stjórnar.
Forseti STF hefur eftirlit með því að kjörnir stjórnarmenn ræki skyldur sínar. Hann hefur einnig eftirlit með störfum nefnda og sér um að þær ræki störf sín. Forseti er fundarstjóri stjórnar, undirbýr fundi, boðar stjórnarfundi og stjórnar þeim en án atkvæðaréttar.
Stjórn skal ráða framkvæmdastjóra og ákveður kjör hans. Skrifstofa sambandsins undir stjórn framkvæmdastjóra annast daglegan rekstur, afgreiðslu, bréfaskriftir og upplýsingaþjónustu í umboði stjórnar STF og annast hann ráðningu starfmanna í samráði við stjórn. Framkvæmdastjóri annast umsýslu sjóða og ávöxtun þeirra í samráði við forseta, varaforseta, gjaldkera og formenn sjóða.
Forseti og framkvæmdastjóri fara með prókúru sambandsins og rita firma þess.
Varaforseti leysir forseta af í forföllum hans og sinnir þeim verkefnum sem forseti eða stjórn felur honum.
Ritari skal halda gjörðabækur stjórnar og þinga. Í þær skal skrá á sem gleggstan hátt það sem gerist á stjórnarfundum og þingum. Fundargerðir stjórnafunda skal senda aðildarfélögum STF innan viku frá því að fundur var haldinn. Viðstaddir stjórnarmenn undirrita hverja fundargerð eftir samþykkt hennar eigi síðar en á næsta reglulega fundi stjórnar.
13. grein, stjórnarfundir
Forseti boðar til stjórnarfunda með minnst einna viku fyrirvara á um tveggja mánaða fresti en oftar ef þurfa þykir. Heimilt er á tímabilinu 1. júní til 1. september að fella niður fundi vegna sumarleyfa. Skylt er forseta að kalla saman stjórn til aukafunda innan tveggja vikna ef þrír stjórnarmenn óska þess. Stjórnarfundir eru löglegir sé löglega til þeirra boðað og meirihluti stjórnar er mættur.
14. grein, sjóðir og vörslur eigna
Sjóðir sem samið er um í kjarasamningum skulu starfa samkvæmt reglugerðum sem samþykktar eru
á löglega boðuðum stjórnarfundum STF. Í reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, tekjur
hans, hvernig verja skuli fé sjóðsins, hvernig stjórn hans skuli háttað og annað er sjóðinn varðar.
Reglugerðarbreytingar skulu kynntar og ræddar á einum fundi og afgreiddar á næsta fundi.
Forseti, varaforseti, gjaldkeri og framkvæmdastjóri STF ásamt formönnum sjóða sjá um vörslur á eignum og fjármunum STF í umboði stjórnar STF. Ávaxta skal sjóði STF í viðurkenndum bönkum (fjármálastofnunum), verðbréfamörkuðum eða á annan tryggan hátt. Sjóðstjórnir halda gjörðarbók um störf sín.
Stjórn STF samþykkir reikninga sambandsins. Gjaldkeri kynnir endurskoðaða reikninga samþykkta af stjórn á sambandsþingum. Reikningsár er almanaksárið.
Samband stjórnendafélaga gefur út blað Sambandsins.
15. grein, heiðursfélagar
Heiðursfélagar geta þeir einir orðið, sem unnið hafa lengi fyrir sambandið eða gegnt þýðingarmiklum trúnaðarstörfum. Stjórn STF tilnefndir heiðursfélaga með samhljóma atkvæðum. Stjórnin skal afhenda heiðursfélögum gullmerki STF ásamt heiðursskjali. Slík heiðursmerki mega ekki aðrir bera en heiðursfélagar. Heiðursfélagar skulu undanþegnir gjaldskyldu en halda öllum áunnum félagslegum réttindum.
Yfirlit yfir lagabreytingar sambandsins
Gildistími breytinga á lögum. 29. Þing VSSÍ á Kirkjubæjarklaustri 27.5. 2001. 30. Þing VSSÍ á Akureyri 25.5. 2003. 31. Þingi VSSÍ í Reykjanesbæ 29.5. 2005. Ób. 32. Þing VSSÍ á Ísafirði 2. 6. 2007. 33. Þing VSSÍ á Hallormstað 4.6.2009. 34. Þing VSSÍ á Sauðárkróki 2.6.2011. 35. Þing VSSÍ á Akureyri 1.6.2013. Lög þessi taka þegar gildi við samþykkt þeirra á 36. Þingi VSSÍ á Selfossi 29.05.2015. 37. Þing STF í Stykkishólmi 20.05.2017. 38. Þing STF á Hallormsstað 11.05.2019. 39. Þing STF í Reykjavík, 11. 09. 2021.
Breytingar á lögum, taka gildi við þingslit Sambandsþings STF.
Reglugerð um notkun fána STF
Fánann má aðeins nota: Við þinghald, fundi og aðrar samkomur sem STF heldur eða er aðili að. Við útför stjórnarmanns STF og Sjúkrasjóðs svo og fyrrverandi stjórnarmanns. Við útför heiðursfélaga, starfandi nefndarmanns og starfsmanns STF.
Netfang
Opnunartími
Skrifstofan er opin alla virka daga milli klukkan 08:00 og 16:00, nema á föstudögum þá lokar klukkan 15:00.
Copyright Ⓒ STF. All rights reserved.